Myndatakan
Ég er ekki með aðgang að stúdíó og tek þess vegna allar mínar myndir úti í náttúrunni, nema um annað sé samið. Ég er sjálf hrifnari af náttúru myndum, finnst þær fallegri og afslappaðri. Börn, unglingar og við fullorðna fólkið slökum betur á úti í náttúrunni og þar af leiðandi verða myndirnar yfirleitt frjálslegri og afslappaðri. Heiðmörk, Rauðhólar, Elliðárdalurinn, Hellisgerði, Öskjuhlíðin og Laugardalurinn eru nokkur af þeim svæðum sem ég hef tekið myndir á, en ef þið eruð með óskastað, stað sem ykkur þykir vænt um þá skoðum við það í sameiningu.
Tímasetning
Þegar bóka á tíma í myndatöku er gott að hafa í huga að barnamyndatökur heppnast best ef þær eru fyrrihluta dags því þá eru börnin úthvíld og oftast í besta mögulega gírnum. Annar möguleiki er að bóka myndatökuna beint eftir síðdegislúrinn (ef þau eru enn að taka lúr). Það lofar oftast ekki góðu að bóka myndatöku beint eftir leikskóla/skóla þegar flestir eru orðnir þreyttir og pirraðir.
Ef um unglingamyndatöku er að ræða þá höfum við um fleiri tímasetningar að velja.
Veður
Eins og allir sem búa á Íslandi gera sér grein fyrir þá er veðurfar hér á landi frekar óútreiknanlegt og þar sem ég tek nánast allar mínar myndir úti þá er ég frekar háð veðrinu. Við ákveðum tímasetningu myndatökunnar, og metum aðstæður þegar nær dregur. Það er ekkert endilega best að vera í glampandi sól, en til að myndatakan heppnist vel þá viljum við að öllum líði vel og við séum ekki að berjast við haglél eða grenjandi rigningu. Það allt í lagi að taka myndir í smá rigningu, og reynum þá að haga staðsetningu eftir veðri, fallegur skógarlundur veitir oft gott skjól ef veður er þannig.
Fatnaður og fylgihlutir
Fallegast er að klæðast klassískum og tímalausum fatnaði í hlutlausum litum. Þá er sniðugt að reyna að forðast helstu tískubylgjur þar sem okkar markmið er að taka myndir sem eiga að lifa lengi en ekki vera barn síns tíma. Þannig er sniðugt að forðast föt með myndum á, mörg mismunandi mynstur, texta og skæra liti.
Fallegt er að klæðast hlutlausum litum í fötum, jarðlitum en hafa einn ráðandi lit í aukahlutum (t.d. trefil, húfu, hárspöng, skó). Um að gera að velta upp hugmyndum fyrir myndatökuna en ég set hugmyndamöppu hér að neðan til að auðvelda ykkur hugmyndavinnuna heimafyrir.
Gott er að hafa í huga að vera klædd eftir veðri. Ef kalt er í úti getur verið gott að vera í ullarnærfötum innan undir fötunum og velja fallega, þykka peysu til að vera í á myndunum eða ullarpeysu, fallega kápu/jakka eða eitthvað þannnig svo að börnunum líði vel.